KG:
Mér finnst lög sem eru samin með gervigreindarforritinu Suno svolítið eins og draumar, eða frásagnir af draumum. Sögurnar eru mjög áhugaverðar og fyndnar fyrir þann sem dreymdi en eru yfirleitt illskiljanlegar og óspennandi fyrir þann sem heyrir bara frásögnina.
Það er auðvelt að hrífast með af töframætti Suno, eins og annarra spunagreindaforrita, texta frá ChatGPT eða mynda frá Midjourney. Gaman að leika sér í þessu sjálfur en þreytandi að sjá afurðir annarra nýgræðinga, hvort sem það eru gervigreindarsmíðaðar myndir eða sniðug svör frá ChatGPT. Gimmikkið verður rosalega þreytt rosalega fljótt.
En af því að lesendur þessa bloggs eru líklega (vonandi) hlustendur/aðdáendur þáttarins, fólk sem hefur áhuga á draumum Lestarinnar, þá birtum við hér engu að síður Suno-lagið sem við gerðum í þættinum á fimmtudag í fullri lengd og með texta. Promptið, eða leiðbeiningarnar voru einhvern veginn svona: Kántrýpopplag sungið af kvenrödd með íslenskum texta um ástarsorg og leigumarkaðinn. Á að innihalda gospel kór og rappað erindi. Andrúmsloftið: bjart og vongott. Innan við mínútu síðar var útkoman tilbúin:
Reyndar heyrist mér þetta ekki vera nein kvenrödd þarna, og enginn gospelkór, og rappið er ekkert voðalega mikið rapp.
Allur þátturinn á fimmtudag fór í það að tala um gervigreindartónlist. Kveikjan er umræða sem fór fram í hópnum Nýleg íslensk tónlist á Facebook. Það vakti hörð viðbrögð þegar tónlistarmaður að nafni Meistari F deildi þar plötu sinni á Spotify sem er öll gerð með Suno. Umræðurnar í hópnum voru heitar og stundum hatrammar en líka frjóar og skemmtilegar, margir góðar punktar. Mæli með að lesa þráðinn, eða bara hlusta á þáttinn þar sem við tökum saman helstu röksemdir.
Eitt sem við náðum ekki að koma inn á er hversu hratt þessi þróun hefur átt sér stað. Þegar við gerðum gervigreindarseríuna okkar sumarið 2023 var þessi tónlistar-spunagreind sem breytir texta-í-tónlist, ekki búin að springa almennilega út. Við fundum frumútgáfu af einu svona forriti á netinu og gátum fengið smá nasaþef af því sem koma skyldi.
Vélstrokkað tilberasmjör
Sú afstaða kemur fram nokkrum sinnum í umræðuþræðinum í Nýleg íslenskt tónlist að þetta auðvelda aðgengi að háþróaðri tónlistar-gervigreind gæti gert tónlistarbransanum gott. Stór hluti tónlistar í dag sé hvortsemer ófrumleg, óspennandi eða stolin. Ofgnótt af týpískri og klisjukenndri gervigreindartónlist, vélstrokkað tilberasmjör, mun bara gera auknar kröfur á frumleika og nýjungagirni í tónlistarsköpun.
Í þættinum spilaði Lóa nokkur brot af tónlist með nýjum íslenskum popptónlistarmönnum og athugaði hvort ég gæti heyrt muninn - tónlistarlegt Turing-próf. Henni tókst ekki að blekkja mig, en ég veit að ég get ekki greint muninn alltaf og almennt, hvað er smíðað af iðnaðargervigreind og hvað smíðað af mannfólki, mörkin eru að mást út. En skiptir það máli? Það er augljóst að það þarf ekkert vera mannlegur sköpunarkraftur að baki hlutum svo að við getum notið þeirra fagurfræðilega: halló náttúra, halló geimur, af hverju ekki halló gervigreind?
Við reyndum líka aðeins að víkka út umræðuna, próblematísera þetta hugtak “gervigreindartónlist”. Þessa stundina sjá margir gervigreind sem samheiti fyrir þessa textadrifnu spunagreind, text-to-x generative ai. En spunagreind er bara eitt tól. Það er hægt, og er verið, að nota hana í mörg sértækari verkefni á ólíkum sviðum tónlistarsköpunar. Við fórum yfir nokkur svoleiðis dæmi með Karli Jóhanni Jóhannssyni, forritara og tónlistarmanni. Hann nefndi til dæmis uppáhalds-listakonu allra tæknisinnaðra tónlistarlúða: Holly Herndon, sem tekst að beita frumlegri og frjórri nálgun á tækni en skapa um leið tónlist sem er ekki bara athyglisverð heldur líka góð!
Það má kannski nefna að ég tók viðtal við Holly þegar hún kom til Íslands til að spila á Sónar árið 2016. Orðið gervigreind kom aldrei fyrir í viðtalinu:
Annað gott í Lestinni þessa vikuna:
Umræða um það hvort forsætisráðherra væri í raun að vara við blöndun kynþátta þegar hann varaði við blöndun menningarheima í podcasti.
Reynir Ólafsson, réttaritari Lestarinnar í táningaheimum, greip míkrófóninn eftir tónleika Yung Lean í Eldborg og spurði fólk spjörunum úr.
Pistill Hauks Más Helgasonar um það hvernig stríð eru alltaf ljót, og ofureinfaldanir eru nauðsynlegar til að tryggja óbilandi samstöðu, til að mynda til að tryggja áframhaldandi stuðning við stríðsrekstur. Það að efast, hika, hugsa verður túlkað sem upplýsingaóreiða, en það er kannski bara annað orð yfir lýðræði. Þar sem Haukur dirfðist til að hugsa upphátt um peningastuðning Íslands í Úkraínu þá var hann strax sakaður um að vera dottinn ofan í Pútinistapytt. Virtur íslenskur rithöfundur kallaði pistilinn mannfjandsamlegan þvætting.
Takk fyrir skemmtilega síðastliðna viku og sérstaklega þáttinn um gervigreindartónlistina! Það er efni sem ég hef mjög gaman af því að velta fyrir mér, eins og sést af þessari langloku hér fyrir neðan.
Nú er ég ekki búinn að lesa facebook þráðinn svo eflaust er ég að endurtaka einhverjar pælingar þaðan en það er gaman að þið hafið búið hérna til umræðuvettvang fyrir efni þáttarins svo ég gríp tækifærið. Eins og þetta blasir við mér er tvennt sem stendur upp úr og í vegi fyrir því að gervigreindar(tón)list geti staðið jafnt mennskri (tón)list. Annars vegar það hve (enn sem komið er a.m.k.) ótrúlega andlaus og ófrumleg gervigreindarsköpuð tónlist er. Ég bað Suno um að skapa fyrir mig "A classical clarinet solo piece with piano accompaniment and some electronic components. It should be inspired by mid-century experimental electronic music but also contain some wholly original ideas". Bókstaflega ekkert af þessu kom fram og lagið varð bara einhver instrumental metall. Sérstaklega varð ég ekki var við "wholly original ideas" partinn, enda er gervigreind svo gott sem ófær um nokkuð algjörlega frumlegt. Hún er hönnuð til að spá fyrir um hvað kemur næst út frá því hvað gögnin sem hún er þjálfuð á segja að passi. Sem er akkúrat öfugt við það að vera frumlegur, þar sem markmiðið er einmitt að gera það sem passar ekki við það sem kom á undan, þangað til það gerir það.
Og þegar gervigreindin gerir eitthvað sem hægt er að kalla frumlegt er það alltaf bara litlir bútar af tilviljunum. Partur af laglínu sem hljómar áhugaverð, nú eða lítill textabútur: "Hjartað er til leigu aftur". Gervigreindin veit ekki að hún gerði nokkuð frumlegt. Oft er hún í raun að gera mistök en hún veit ekki að hún gerði mistök og veit ekki að mistökin eru áhugaverð. Rétt eins og þegar elsku íslenska ChatGBT dreifir nýyrðum um textann sinn eins og kókos á skúffuköku. Hún ætlaði ekki að búa til nýyrði og hún veit ekki að hún bjó til nýyrði, hvað þá að hún hafi einhverja leið til að segja til um hvort nýyrðin séu áhugaverð eða ekki.
Sem leiðir okkur að hinum punktinum. Gervigreindin veit ekki af hverju hún gerir það sem hún gerir. Öll (mannleg) sköpun er full af ákvörðunum og það að einhver manneskja valdi að hafa hlutina svona en ekki hinsegin er eitt af því sem gerir list svo áhugaverða, enda byggir nær öll umræða um list á því. Af hverju valdi málarinn þennan lit? Meinar hann eitthvað með því? Og ef svo er af hverju vill hann koma þeirri hugsun frá sér? Af hverju orðaði rithöfundurinn þetta svona? Hvaða sköpunarferli átti sér stað þannig að sinfóníur Beethovens urðu til? Hvernig datt FKA Twix í hug allt þetta brjálaða stöff sem er í gangi í nýja Eusexua myndbandinu? Við fáum ekki endilega svör við þessum spurningum og fleiri en við getum alla vega spurt þeirra og rætt þær þannig að þær hafi einhverja merkingu. En spurningin "hvað meinar gervigreindin með línunni "Hjartað er til leigu aftur"?" er algjörlega merkingarlaus því gervigreindin er alls ófær um að meina eitt né neitt. Hún veit ekki af hverju hún sagði þetta og ef þú spyrð færðu annað merkingarlaust svar. Að textahöfundur geti orðað þínar eigin hugsanir sem þú komst ekki í orð er galdur og galdurinn felst m.a. í því að vita að það sé önnur manneskja hinum megin sem hugsar eins og þú, sem líður eins og þér. En þessi galdur hverfur um leið og þú veist að það var gervigreind sem bjó til textann, því gervigreind hugsar ekki og gervigreind líður ekki á neinn hátt.
Frábær pistill hjá Hauki Má í vikunni! Takk f mig - kv hollvinur Lestarinnar